Hugarflug- Johannatravel er ALLS EKKI ferðaskrifstofa. Segja má að þetta sé laustengdur og sérdeilis óformlegur ferðaklúbbur þar sem fólk tekur sig saman um að ferðast saman og undir handarjaðri mínum, til landa Arabaheimsins.
Þessi hluti heimsins hefur ekki verið mikið sóttur af íslenskum ferðamönnum enda hafa menn ekki haft mikil kynni af honum og stundum neikvæða í gegnum litaðan fréttaflutning.
Ég hef búið og starfað og ferðast um þennan heimshluta í mörg ár, verið þar sem blaðamaður upphaflega, síðar flækst víða um á eigin vegum og loks búið í Egyptalandi, Sýrlandi, Jórdaníu, Jemen og Óman um lengri eða skemmri tíma við arabískunám og er nú að vinna að bók um arabískar konur sem vonandi kemur út síðar á þessu ári.
Vinir og kunningjar tóku sig saman og við skipulögðum ferð í samráði við ágæta kunningja í ferðabransanum í Sýrlandi og Líbanon og þannig hófst þetta. Ferðirnar spurðust vel út, fólk sneri heim hrifið og undrandi yfir þeirri upplifun, þeim minjum fortíðar og því skrautlega mannlífi sem það kynntist í ferðunum. Og ekki má gleyma að íslensku ferðamennirnir hrifust ekki hvað síst af fólkinu sem þarna býr og þeirri gestrisni og hlýju sem hvarvetna mætir okkur.
Svo hefur þetta undið upp á sig og æ fleiri sækja í þessar ferðir og fýsir að kynnast þessum framandi heimi. Því hafa ýmsir kunningjar kunningja bæst við og vitaskuld eru allir velkomnir svo fremi þeir séu forvitnir og jákvæðir.
Ég vil endilega að það komi fram að einmitt af því að ég hef búið í þessum löndum og þekki verðlag og þess háttar og af því þetta er ekki hefðbundin ferðaskrifstofa með tilheyrandi yfirbyggingu og ákveðin hugsjón - kannski dálítið barnaleg liggur þarna að baki tekst að halda verðinu skikkanleguog ég fæ meiri ánægju út úr þessu en efnalega sæld. En er samt mjög sæl því með því að fá tækifæri til að kynna fólki þennan heim sem hefur verið svo afræktur og misskilinn fæ ég kætina af því að sjá fólk gleðjast. Vatnsberar eru svona. Dálítið naiv og undarlegir en ágætir inn við beinið.

Eftir nokkur bréfaskipti við Samgönguráðuneytið hefur það nú samþykkt að johannatravel flokkist ekki undir að vera ferðaskrifstofa og er það okkur gleðiefni.
Á hinn bóginn leggur ráðuneytið áherslu á að tryggingar þeirra sem fara í ferðirnar séu í góðu lagi. Því hefur VIMA ákveðið að menn skuli bera fulla og óskoraða ábyrgð á tryggingum sínum. Flestir eru með heimilistryggingu og ættu því að huga að því að bæta ferða- og forfallatryggingu inn í hana ef hún er ekki fyrir.